Stjórnvöld hafa á síðustu árum lagt áherslu á að byggja upp stafræna stjórnsýslu í tenglum við framkvæmd búvörusamninga. Markmiðið er að auðvelda framleiðendum í landbúnaði aðgengi að upplýsingum, sem og að auðvelda og styrkja stjórnsýslu í tengslum við framkvæmd á búvörusamningum ríkis og bænda.
Með AFURÐ nýtir stjórnsýslan sér stafrænar lausnir og yfirgripsmikla gagnagrunna í landbúnaði sem eykur þjónustustig og gegnsæi við framkvæmd búvörusamninga.
AFURÐ var opnuð þann 5. desember 2019 fyrir alla framleiðendur í landbúnaði.
Í AFURÐ er jarðabók fyrir öll bú landsins sem eru með virkan búrekstur (hver og einn umráðamaður fær aðgang að búi sínu), en þar eru grunnupplýsingar um bú, tengiliði, eigendur skv. lögbýlaskrá, upplýsingar um alla lifandi gripi búsins skv. upplýsingum úr skýrsluhaldskerfum, yfirlit yfir allar stuðningsgreiðslur yfir árabil, greiðslumark o.fl. Í AFURÐ er rafrænt umsóknarkerfi, þar sem framleiðendur í landbúnaði geta sótt um stuðningsgreiðslur í tengslum við búvörusamninga. Jafnframt hafa úttektarmenn aðgang að AFURÐ, afurðastöðvar, Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins o.fl. sem gegna hlutverki í stjórnsýslu í kringum landbúnað.